QR Code Business Card

Fyrir 30821 dögum síðan framreiddi Bæjarins Beztu sína fyrstu pylsu

Vissir þú að….


August 3, 2011

a2325cb1a8832e528b09a7c57337e1a3… að fyrstu árin voru pylsurnar á Bæjarins beztu ekki bornar fram í brauði – heldur bréfi.

… að það var ekki fyrr en 1948, þegar skömmtun á hveiti var aflétt sem farið var að bera pylsurnar fram í pylsubrauði.

… að Bandaríkjamenn borða 150 milljón pylsur á þjóðhátíðardegi sínum; þann 4. júlí ár hvert. (The National Hot Dog and Sausage Council)

… að fimm núverandi starfsmenn Bæjarins beztu hafa unnið hjá fyrirtækinu í meira en þrjátíu ár. Þetta eru þau María, Ásgeir, Bjössi, Guðrún og  Jón.

… að “pylsa” … eða “hot dog” var það fyrsta sem Mikki mús sagði opinberlega.

… að árið 2006 valdi breska stórblaðið The Guardian Bæjarins beztu næstbesta skyndibitastað í heimi.

… að besti skyndibitinn var skoskur hafragrautstaður.

… að það er ekkert bragð af lauk … bara lykt.

… að þó nokkrum sinnum hafi verið skipt um “innréttingar” á Bæjarins beztu – þá hafa verið nánast óbreyttar í útliti frá upphafi.

…  að tómatsósa var einu sinni seld sem lyf.

… að þrátt fyrir að Vals tómatsósa hafi ekki verið til á almennum markaði í     ár – þá hafa Bæjarins beztu verið bornar fram með Vals tómatsósu allar götur    frá 1960. Valur einfaldlega  framleiddi hana sérstaklega fyrir pylsuvagninn öll þessi ár.

… að á 19. öld gastu keypt tómatsósu með ýmsum bragðtegundum í Bandaríkjunum; t.d. með humar-, ostru-, valhnetu- og ansjósubragði

… að fyrstu árin var aðeins seld mjólk með pylsunum á Bæjarins beztu.

… að aðeins 3% Bandaríkjamanna vill pylsu með engu.

… að lengi framan af var “ein með öllu” pylsa með tómatmauki og sinnepi. Það var ekki fyrr en um miðja síðustu öld sem Bæjarins beztu fóru að bjóða upp á lauk með pylsunum.

… að ef þú biður um eina “Chicago” í samnefndri borg – þá færðu pylsu með gulu sinnepi, dökkgrænu “relish”, hráum lauk og tómatsneiðum. Yfir þessi herlegheit er svo sáldrað svolitlu sellerí-salti.

… að Joey Chestnut er nýkrýndur heimsmethafi í pylsuáti. Og hvert er metið? Haltu þér fast … 66 pylsur á 12 mínútum, takk fyrir pent – og þetta met setti hann í pylsuátskeppni sem haldin var á Coney Island 4. júlí 2007.

… að Mount Horeb safnið í Wisconsin í Bandaríkjunum er  sérstakt sinnepssafn. Stofnandi safnsins, Barry Levenson, er ekki bara hrifinn af hvers konar sinnepi … heldur hreinlega heltekinn af því. Hann borðar ekki bara sinnep með kjöti og fiski – heldur fær hann sér ekki ís með dýfu í eftirrétt – heldur ís með sinnepi.

… að Bæjarins beztu er sennilega sá íslenski veitingastaður sem hefur hlotið mesta umfjöllun í erlendum fjölmiðlum. Og þá erum við að tala um afar jákvæða umfjöllun … en ekki hvað?

… að þó Bæjarins beztu séu vandfundnar úti í hinum stóra heimi – þá bjóða aðrar þjóðir svo sem upp á alls konar pylsur. Á Spáni kallast þær “perrito caliente”, á Ítalíu “cane caldo” og Frakkarnir tala um “chien chaud”. Þjóðverjar eiga fleiri tegundir af pylsum en flestar aðrar þjóðir – og viljirðu fá þér eina með öllu þar í landi – þá biðurðu um “Wurst” eða “Heisser Hund”. Á hollensku er þetta aðeins öðruvísi – þar tala pylsuáhugamenn af ástríðu um “worstjes”. Bon appetit!

… að uppáhalds málsverður Marlene Dietrich var pylsur og kampavín … og oft lifði hún á þessu tvennu heilu vikurnar.

… að fyrstu áratugina komu pylsubrauðin alltaf óskorin úr bakaríinu. Það var því fyrsta verk fjölskyldunnar á hverjum morgni að skera nokkur hundruð pylsubrauð.

… að enn þann dag í dag er það hernaðarleyndarmál hvað gerir  Bæjarins beztu í alvöru að Bæjarins beztu pylsum.

… að bæði Elvis Presley og Led Zeppelin hafa sent frá sér lög sem heita einfaldlega “Hot dog”. Bob Dylan minnist einnig á pylsur í lagi sínu “Talkin’ World War III Blues” sem finna má á plötunni “Freewheelin’ Bob Dylan”.

… að í mörg ár var ekki hægt að fá remúlaði í pylsurnar á 17. júní – því það þótti of tímafrekt að setja það á þegar mikið var að gera.

… að þrír fyrrum forsetar Bandaríkjanna buðu upp á eina með öllu í opinberum veislum í Hvíta húsinu. Þetta voru þeir Franklin D. Roosevelt árið 1939, Jimmy Carter 1977 og Ronald Reagan 1980.

… að “ein með súrkáli og osti” er vinsælasta pylsan hjá íbúum Kansas City.

… að Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti fékk sér ekki eina með öllu á Bæjarins beztu – heldur eina með miklu sinnepi.

… að Ísland er eitt af örfáum löndum sem býr til pylsur úr lambakjöti – en ekki svína- eða nautakjöti.

… að  það er boðið upp á pylsur í páfagarði. Hægt er að panta sér eina með öllu á veitingastað í Vatíkaninu.

… að fyrst þegar farið var að bjóða upp á remúlaði á pylsurnar á  Bæjarins beztu – þá kostaði pylsa með remúlaði 10 krónum meira en pylsa með tómat, sinnepi og steiktum.

… að þó flestir Bandaríkjamenn séu brjálaðir í pylsur virðast amerískir karlar  í við hrifnari af réttinum en þarlendar konur. Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að 34% karla borða pylsu í hverri viku … en aðeins 24% kvenna.

… að það var ekki fyrr en um 1980 sem Bæjarins beztu fóru að bjóða upp á kók með pylsunum. Fram að þeim tíma drakk fólk einfaldlega ískalda mjólk með.